Ýmsar vangaveltur hafa verið um hvort hann hafi látist af völdum hjartaáfalls eða heilablóðfalls, en starfsfólk Ritz-hótelsins komu að Saget látnum í rúmi sínu eftir að hafa fengið beiðni frá aðstandendum grínistans um að kanna málið eftir að þau höfðu ekki náð sambandi við hann í einhvern tíma.
Í yfirlýsingu frá fjölskyldunni segir hins vegar að ekki hafi verið um heilablóðfall eða hjartaáfall að ræða, heldur hafi hann látist af völdum höfuðáverka.
„Yfirvöld hafa slegið því föstu að Bob lést af völdum höfuðáverka,“ segir í yfirlýsingunni að því er fram kemur í frétt Deadline. Hafi hann rekið hnakkann í eitthvað og farið svo að sofa án þess að hugsa meira um það.
Ennfremur segir að Saget hafi hvorki verið undir áhrifum áfengis né annarra fíkniefna þegar hann lést. Fjölskyldan þakkar sömuleiðis fyrir allan þann stuðning sem þau hafi fengið í kjölfar andláts Sagets.
Túlkaði Danny Tanner í Full House
Saget var þekktastur fyrir að hafa farið með hlutverk ekkilsins Danny Tanner í þáttunum Full House, sem framleiddir voru á árunum 1987 til 1995. Í þáttunum sagði frá uppeldi hans á þremur dætrum sínum með aðstoð tveggja bræðra sinna sem þeir John Stamos og Dave Coulier túlkuðu.
Candace Cameron Bure, Jodie Sweetin fóru með hlutverk tveggja elstu dætranna, DJ og Stephanie, og Mary-Kate og Ashley Olsen skiptust á að túlka þá yngstu, Michelle.
Síðar meir átti Saget einnig eftir að stýra þáttunum America‘s Funniest Home Videos og vera sögumaðurinn í þáttunum How I Met Your Mother.
Saget setti sig aftur í spor Tanner þegar Netflix hóf framleiðslu á þáttunum Fuller House árið 2016 þar sem kastljósinu var beint að eldri dætrum Tanner sérstaklega.