Enski boltinn

Eriksen sér enga áhættu í því að snúa aftur inn á fótboltavöllinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Eriksen sést hér kominn í búning Bentford.
Christian Eriksen sést hér kominn í búning Bentford. Instagram/@brentfordfc

Christian Eriksen líkir því við kraftaverk að hann geti snúið aftur inn á völlinn með enska úrvalsdeildarliðinu Brentford.

Eriksen samdi við Brentford fram á vor og mun þar spila sína fyrstu fótboltaleiki síðan að hann fór í hjartastopp í fyrsta leik Dana á Evrópumótinu í fyrra.

Hinn 29 ára gamli danski miðjumaður var lífgaður við á grasinu á Parken og náði sér ótrúlega vel. Hann fékk græddan í sig gangráð og af þeim sökum mátti hann ekki lengur spila í ítölsku deildinni með Internazionale. Ítalska félagið sagði upp samningi hans í framhaldinu og hann kemur því til Brentford á frjálsri sölu.

„Það fyrsta sem kemur upp í hugann er þakklæti,“ sagði Christian Eriksen við breska ríkisútvarpið.

„Þakklæti til fólksins í kringum mig, liðsfélaganna, læknanna sem komu inn á völlinn, starfsfólkinu á sjúkrahúsinu og öllum sem hafa passað upp á mig,“ sagði Eriksen.

„Svo eru það líka öll skilaboðin sem ég fékk þar sem ég og fjölskylda mín fengu svo mikinn stuðning. Það hefur verið yndislegt að fá allar þessar góðar kveðjur,“ sagði Eriksen.

„Ég er mjög heppinn og ég hef sagt öllum að ég sé mjög þakklátur fyrir það sem þau gerðu því annars væri ég ekki hérna í dag,“ sagði Eriksen.

„Ég lít á þetta þannig að ég hafi verið óheppinn en heppinn með stað. Ég vona að enginn lendi í svona og ég bjóst aldrei við því að ég myndi lenda í slíku. Sem betur var fólkið í kringum mig svo fljótt að átta sig á hlutunum. Ég er einstaklega þakklátur til læknanna á vellinum,“ sagði Eriksen.

Eriksen segist líka jafnvel vera í betra ástandi núna en fyrir atvikið. Hann ætlar sér að gera allt til að komast aftur á sama stað og hann var sem fótboltamaður. Hann óttast heldur ekki að takast á við áskoranirnar sem bíða hans.

„Ég mun ekki breyta mínum leik. Ég hef þurft að passa vel upp á það að gera allar aukaæfingarnar og kannski er ég því ég betra formi áður. Það vantar bara fótboltann. Mér líður eins og ég sjálfur og sé enga fyrirstöðu fyrir því að komast aftur á sama stað,“ sagði Eriksen.

Eriksen hugsaði ekki um það fyrst eftir atvikið að hann myndi snúa inn á völlinn. „Ég vildi fara í gegnum öll prófin og tala við alla læknana til að fá vita um alla möguleikana,“ sagði Eriksen.

„Síðan þá, kannski frá því viku eftir atvikið, þegar þau sögu að það eina sem væri breytt væri að ég væri með gangráð, þá hef ég getað lifað eðlilegu lífi. Það er ekkert sem stendur í veg fyrir mér,“ sagði Eriksen.

„Það var léttir en líka skrítið af því að ég vildi ekki ofgera mér. Ég vildi ekki taka neina óþarfa áhættu og þess vegna fór ég í allar mögulegar rannsóknir,“ sagði Eriksen.

„Þetta sem ég er að gera núna mun ekki hafa áhrif á mig eftir þrjátíu ár. Ef þeir segja mér að eitthvað hafi breyst þá er það önnur saga,“ sagði Eriksen.

„Ég sé enga áhættu, ég er með gangráð og ef eitthvað gerist þá er ég öruggur,“ sagði Eriksen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×