Undir lok árs 2019 greindu Reitir frá því að samkomulag hefði náðst við Hyatt, sem rekur fleiri en þúsund hótel í 69 löndum, um sérleyfisrekstur hótels að Laugavegi 176. Áformað var að fasteignin, sem um áratuga skeið hýsti starfsemi Ríkissjónvarpsins, yrði endurbyggð og stækkuð þannig að 169 hótelherbergi kæmust þar fyrir.
Áður en Covid setti strik í reikninginn var stefnt að opnun hótelsins á þessu ári og var kostnaðurinn áætlaður rúmlega 4 milljarðar króna.
„Við erum að láta vinna fyrir okkur ýtarlega könnun á íslenska hótelmarkaðinum og hvaða áhrif Covid hefur haft á hann,“ sagði Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita á uppgjörsfundinum í morgun en um 17 prósent af eignasafni fasteignafélagsins eru nýtt undir hótelrekstur í dag.
„Það er samkomulag milli okkar og Hyatt um að þessi mál myndu bíða þangað til Covid-storminn myndi lægja. Vonandi fer honum að lægja og við þurfum að taka ákvörðun núna á vormánuðum um hvaða skref við stígum næst. En við erum að bíða eftir þessari skýrslu til að geta tekið upplýsta, góða ákvörðun sem byggir á gögnum.“
Reitir högnuðust um 7,6 milljarða króna í fyrra samanborið við tæpa 2 milljarða á árinu 2020, og tekjur fasteignafélagsins jukust um 11 prósent milli ára. Guðjón sagði uppgjör ársins bera með sér batnandi horfur. Efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins væru enn sýnileg í rekstrarniðurstöðu ársins en vonir stæðu til þess að þau yrðu hverfandi á árinu 2022.