Körfubolti

Jón Arnór uppljóstrar því hvernig hann var lokkaður í Val

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Pavel Ermolinskij og Jón Arnór eru góðir vinir.
Pavel Ermolinskij og Jón Arnór eru góðir vinir. Skjáskot/Stöð 2 Sport

Félagaskipti Jóns Arnórs Stefánssonar úr KR í Val fara líklega í sögubækurnar sem ein óvæntustu félagaskipti í íslenskri íþróttasögu.

Jón Arnór er einn besti körfuboltamaður Íslands frá upphafi og átti góðan atvinnumannaferil áður en hann sneri aftur heim til Íslands árið 2016 og gekk þá í raðir uppeldisfélagsins KR frá Valencia.

Jón varð Íslandsmeistari með KR 2017, 2018 og 2019 en stóð á ákveðnum krossgötum haustið 2020.

Hann fer yfir aðdragandann að félagaskiptunum óvæntu í heimildarþáttum um feril sinn sem hefja göngu sína á Stöð 2 Sport í kvöld.

„Ég var að íhuga það að hætta en svo hugsaði ég að þetta væri ekki eitthvað sem kæmi aftur svo ég ákvað að taka eitt tímabil í viðbót,“ segir Jón.

„Ég og Pavel (Ermolinskij) höfðum verið mikið saman og oft grínast með hvernig það væri að spila fyrir annað lið en KR. Þá kom upp spurningin hvaða lið væri það?“ 

Í kjölfarið hafi svo Pavel gengið í raðir Vals haustið 2019 og náð að lokka Jón Arnór yfir með sér ári síðar. Þeir félagar fara yfir aðdragandann í klippunni hér að neðan sem er úr þætti kvöldsins.

Þáttaröðin um feril Jóns Arnórs Stefánssonar er sex þátta sería sem sýnd er á Stöð 2 Sport á miðvikudögum klukkan 20:00. Þeir fara svo í sýningu á Stöð 2 og Stöð 2+ á fimmtudögum klukkan 19:10.

Klippa: Jón Arnór



Fleiri fréttir

Sjá meira


×