Í nýju deiliskipulagi frá meirihlutanum í borginni er lagt til að íbúar við Einimel 18-26 fái í sinn hlut samtals um 388 fermetra lóð, sem áður var litið á sem borgarland. Á móti tekur borgin þó um 700 fermetra land, sem hluti íbúanna hefur verið með í fóstri - eins og sagt er - í áratugaraðir.
Hér má sjá breytingarnar sem verða á lóðunum:
Aldrei verið nein deila um þetta mál
Teiti Atlasyni varaborgarfulltrúa Samfylkingarinnar - sem var í 19. sæti á lista flokksins í kosningunum 2018 - misbýður þessi lausn borgarinnar.
„Mér finnst þetta enginn millivegur. Ef einhver stelur af þér bíl, þá viltu væntanlega fá bílinn til baka - en ekki bílinn með engum hjólbörðum. Þú vilt bara fá bílinn til baka,“ segir Teitur í samtali við fréttastofu.
En ef maður sér fyrir sér að borgin hefði kosið að fara í hart að þá hefðu mögulega hefðarréttarsjónarmið komið þarna inn og sömuleiðis að borgin hafi sjálf sýnt tómlæti þarna í hálfa öld?
„Þessu er varpað upp til dæmis af Viðreisn að þarna hafi verið einhverjar deilur í gangi. Það hefur aldrei verið nein deila um þetta mál, það hefur alltaf verið ljóst að Reykjavíkurborg á þessa lóð. Alltaf,“ segir Teitur.
En af hverju er þessi ákvörðun þá tekin núna? Teitur segir valdamikið fólk í íslenskum stjórnmálum og efnahagslífi búa við Einimel.
„Það fólk hefur mikið vogarafl í pólitískum ákvörðunum. Mér dettur í hug að það sé verið að reyna að skapa gott veður fyrir þetta fólk,“ segir Teitur.
Þar vísar hann meðal annars til Einars Arnar Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, sem býr í einu húsanna og einnig Hildar Björnsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks. Hún býr að vísu ekki í húsi sem tengist málinu.

388 fermetra lóð í Vesturbæ gæti verið samtals um 20 milljón króna virði. En lóðin sem var alltaf í notkun var að auki um 700 fermetrar - sem má sjá fyrir sér að sé um 35 milljón króna virði ef það hún væri seld.
„Þau eru búin að hafa þessa lóð í 30-40 ár. Þetta eru nokkur hundruð fermetrar. Af hverju má þá ekki reikna með að þau borgi þá allavegana lóðagjöld 30-40 ár í tímann, ef að það á að gera þetta upp þetta mál?“ sagði Teitur Atlason.
Þess er þó að geta að fæstir íbúanna munu hafa búið í húsunum allan þann tíma sem umræddar lóðir hafa verið í fóstri.