Sport

Úkraínsk tenniskona sló út Rússa og gefur úkraínska hernum allt verðlaunaféð sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elina Svitolina fagnar sigri á þeirri rússnesku með táknrænum hætti.
Elina Svitolina fagnar sigri á þeirri rússnesku með táknrænum hætti. AP/

Úkraínska tenniskonan Elina Svitolina vann Rússann Anastasiu Potapovu á móti í Mexíkó sem er hluti af heimsmótaröðinni í tennis. Hún segir þetta hafa verið stóran sigur fyrir sig en um tíma ætlaði hún ekki að mæta til leiks.

Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir helgi með öllum þeim hörmungum sem slíkt hefur í för með sér fyrir úkraínsku þjóðina. Úkraínumenn ætla að verja landið sitt og Svitolina vann táknrænan sigur hinum megin við Atlantshafið.

Svitolina vann Potapovu örugglega 6-2 og 6-1 á þessu Opna Monterrey tennismóti.

Hún hafði áður sagt að hún myndi ekki spila á móti Rússa eða Hvít-Rússa en breytti um skoðun þegar Alþjóðatennissambandið ákvað að Rússar mættu ekki keppa undir nafni eða fána þjóðar sinnar. Svitolina varð þá sannfærð um að hún gerði meira fyrir þjóð sína að vinna leikinn.

„Leikurinn í dag var mjög sérstakur fyrir mig. Ég er mjög leið yfir öllu því sem er í gangi en ég er ánægð að fá að spila tennis hér. Ég var einbeitt og sinnti þessu sem sendiför fyrir þjóð mína,“ sagði Elina Svitolina.

„Það er mitt verkefni að sameinaða allt tennissamfélagið að baki Úkraínu og fá alla til að hjálpa Úkraínumönnum því úkraínska fólkið er að fara í gegnum algjöran hrylling. Ég er hér til að keppa fyrir þjóð mína og geri mitt besta til að nýta þennan vettvang til að fá fólk til að styðja við bakið á Úkraínu,“ sagði Svitolina.

Svitolina ætlar líka að gefa úkraínska hernum allt verðlaunafé sitt frá mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×