Hljómsveitin fræga er líkt og Afturelding úr Mosfellsbæ og gerðist í fyrra styrktaraðili knattspyrnudeildar félagsins. Þrír meðlimir Kaleo léku með yngri flokkum Aftureldingar á sínum tíma.
Afturelding leikur því með merki Kaleo framan á búningum sínum í Bestu deild kvenna og Lengjudeild karla í sumar og nú eru treyjurnar farnar að seljast erlendis, á tónleikaröð Kaleo sem nú er hafinn í Bandaríkjunum.
Samkvæmt tilkynningu frá Kaleo rennur allur ágóði af sölu treyjanna til Aftureldingar, „til stuðnings félaginu sem við elskum“. Nokkrar áritaðar treyjur verða í boði á hverjum tónleikum.
Ljóst er að uppátækið fellur vel í kramið hjá aðdáendum Kaleo sem á samfélagsmiðlum lýsa yfir vilja til að festa kaup á Aftureldingar-treyjum.
Hljómsveitin er nú stödd í Kaliforníu og heldur tónleika í San Diego í kvöld. Fram undan er löng röð tónleika í Bandaríkjunum og Kanada áður en sveitin færir sig svo yfir til Evrópu í sumar. Samkvæmt áætlun lýkur tónleikaröðinni í Rússlandi og Úkraínu í október en sú áætlun var gerð áður en innrás Rússa í Úkraínu hófst.