Handbolti

„Vinna og vinna aftur, það er markmiðið þegar þú ert í Val“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði þrjú mörk gegn KA.
Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði þrjú mörk gegn KA. vísir/hulda margrét

Þrátt fyrir að vera svo til nýbyrjaður í meistaraflokki vann Einar Þorsteinn Ólafsson sinn þriðja stóra titil með Val þegar liðið bar sigurorð af KA, 36-32, í úrslitaleik Coca Cola bikars karla í dag.

„Þetta er nánast sætara í annað skiptið, þegar þetta er svona ótrúlega spennandi. Bæði lið voru bara geggjuð í dag,“ sagði Einar.

„Þetta er frábært og það eru tveir titlar í viðbót sem við ætlum að taka á þessu tímabili. Svo bara vinna og vinna aftur, það er markmiðið þegar þú ert í Val.“

Valur var tveimur mörkum undir í hálfleik, 15-17, en sneri dæminu sér í vil í seinni hálfleik.

„Mér fannst þeir ótrúlega flottir í sókn, nýttu færin sín og við áttum í basli. Það sem bjargaði okkur var þessi seinni bylgja og hvað við vorum góðir í sókn. En við náðum aðeins að þétta í seinni hálfleik þegar við föttuðum aðeins hvað þeir voru að gera,“ sagði Einar.

Valsmenn spila gríðarlega hraðan handbolta og keyra í bakið á andstæðingnum við hvert tækifæri.

„Þetta er nákvæmlega það sem Snorri [Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals] kennir okkur. Og í yngri flokkunum hefur þetta alltaf verið svona; keyra, keyra, keyra. Þetta eru auðveld mörk,“ sagði Einar að endingu.


Tengdar fréttir

Snorri Steinn: Svakalega glaður og stoltur af liðinu

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var að vonum ánægður eftir sigurinn á KA, 36-32, í úrslitaleik Coca Cola bikar karla í handbolta í dag. Þetta var fjórði stóri titilinn sem Valur vinnur undir stjórn Snorra og sá þriðji á síðustu níu mánuðum. Þeir hafa allir unnist á Ásvöllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×