Körfubolti

„Eina sem við erum búnar að horfa á er bikarinn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórdís Jóna Kristjánsdóttir og stöllur hennar í Breiðabliki verða á heimavelli á bikarhelginni.
Þórdís Jóna Kristjánsdóttir og stöllur hennar í Breiðabliki verða á heimavelli á bikarhelginni. vísir/sigurjón

Blikar eru í dauðafæri á að komast í bikarúrslit í fyrsta sinn í sögu félagsins. Breiðablik mætir 1. deildarliði Snæfells í undanúrslitum VÍS-bikars kvenna í körfubolta í dag.

„Þetta leggst mjög vel í okkur. Það er geggjað að fá að taka þátt í þessu. Þetta hefur verið svolítið erfitt tímabil fyrir okkur,“ sagði Þórdís Jóna Kristjánsdóttir, leikmaður Breiðabliks, í samtali við Vísi.

Þrátt fyrir að Blikar séu miklu sigurstranglegri fyrir leikinn í dag segir Þórdís enga hættu á að þeir vanmeti Hólmara.

„Þetta er Snæfell, þetta er hörkulið. Þær eru að gera mjög góða hluti í 1. deildinni. Þetta er bikar og það er ekki hægt að mæta með vanmat og hugsa að þetta sé 1. deildarlið því það getur allt gerst,“ sagði Þórdís.

Blikar eru í 6. sæti Subway-deildarinnar og sigla lygnan sjó, geta ekki fallið og ekki komist í úrslitakeppnina. Bikarinn hefur því verið gulrót Breiðabliks í nokkuð langan tíma.

„Við erum ekki að gera neitt í deildinni þannig að þetta hefur verið erfitt í síðustu leikjum, ekki með Kana og svona. Eina sem við erum búnar að horfa á er bikarinn. Við erum svo spenntar að spila því það er bikar í boði,“ sagði Þórdís.

„Þetta er eina sem við horfum á, það er lítið annað hægt að gera. Sem betur fer erum við með þetta sem hvatningu því annars værum við kannski bara að tapa leikjum. En við unnum Val í síðustu viku sem er eitt af bestu liðunum. Við getum unnið hvaða lið sem er,“ sagði Þórdís að lokum.

Leikur Breiðabliks og Snæfells hefst klukkan 17:15 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×