Körfubolti

Ríkjandi meistarar hafa ekki tapað fyrsta leik í næstu úrslitakeppni síðan fyrir hrun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórsara fagna hér í leik í vetur.
Þórsara fagna hér í leik í vetur. Vísir/Bára Dröfn

Það eru liðin fjórtán ár síðan að ríkjandi Íslandsmeistarar í körfubolta byrjuðu úrslitakeppnina ár eftir á tapi. Það gerðist síðast hjá KR-ingum vorið 2008.

Íslandsmeistarar Þórs úr Þorlákshöfn hefja titilvörnina sína í kvöld þegar Grindavíkur kemur í heimsókn í Icelandic Glacial höllina.

Frá hruni hafa allir Íslandsmeistarar byrjað næstu úrslitakeppni á sigri.

KR var Íslandsmeistari frá 2007 þegar liðið tapaði með níu stiga mun á heimavelli, 76-85, í fyrsta leik átta liða úrslitanna á móti ÍR í átta liða úrslitunum 2008.

Frá því að núverandi fyrirkomulag var tekið upp veturinn 1996-97 hefur aðeins eitt annað Íslandsmeistaralið tapað fyrsta leik í úrslitakeppni árið eftir en það voru Keflvíkingar vorið 2000. Bæði KR 2008 og Keflavík 2000 duttu út í átta liða úrslitum þessi ár þar sem titilvörnin byrjaði á tapi.

Það hefur reyndar ekki munað miklu í síðustu tveimur úrslitakeppnum þar sem þá Íslandsmeistarar KR unnu aðeins eins stigs sigur bæði árin, fyrst 77-76 útisigur á Keflavík vorið 2019 og svo 99-98 útisigur á Val í fyrra.

Leikur Þórs og Grindavíkur verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst útsendingin klukkan 20.10. Strax á eftir verður síðan Subway Körfuboltakvöld þar sem gerðir verða upp leikirnir í fyrstu umferð átta liða úrslitanna.

  • Fyrsti leikur Íslandsmeistara í næstu úrslitakeppni á eftir:
  • 2021 - KR: 1 stigs sigur á Val
  • 2019 - KR: 1 stigs sigur á Keflavík
  • 2018 - KR: 15 stiga sigur á Njarðvík
  • 2017 - KR: 31 stigs sigur á Þór Ak.
  • 2016 - KR: 18 stiga sigur á Grindavík
  • 2015 - KR: 6 stiga sigur á Grindavík
  • 2014 - Grindavík: 10 stiga sigur á Þór Þorl.
  • 2013 - Grindavik: 17 stiga sigur á Skallagrími
  • 2012 - KR: 16 stiga sigur á Tindastól
  • 2011 - Snæfell: 9 stiga sigur á Haukum
  • 2010 - KR: 17 stiga sigur á ÍR
  • 2009 - Keflavík: 8 stiga sigur á Njarðvík
  • 2008 - KR: 9 stiga tap fyrir ÍR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×