Handbolti

Portúgölsku undrabræðurnir magnaðir gegn Ómari, Gísla og félögum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hinn sautján ára Francisco „Kiko“ Costa skoraði samtals átján mörk í einvígi Sporting og Magdeburg.
Hinn sautján ára Francisco „Kiko“ Costa skoraði samtals átján mörk í einvígi Sporting og Magdeburg. heimasíða sporting

Nýjar stórstjörnur virðast vera að fæðast í handboltanum. Þetta eru Costa-bræðurnir ungu frá Portúgal, Martim og Francisco. Þeir sýndu snilli sína í leik gegn Magdeburg í Evrópudeildinni í gær.

Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í Magdeburg sluppu með skrekkinn gegn Sporting í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar í gær. Fyrri leikurinn í Portúgal endaði með 29-29 jafntefli en Magdeburg vann seinni leikinn með eins marks mun, 36-35. Lukas Mertens skoraði sigurmark þýska liðsins á ögurstundu.

Ómar Ingi skoraði tíu mörk úr fjórtán skotum fyrir Magdeburg og var markahæstur á vellinum ásamt annarri örvhentri skyttu, Francisco „Kiko“ Costa. Sá er aðeins sautján ára, fæddur 2005.

Kiko skoraði tíu mörk úr tólf skotum í leiknum í Magdeburg í gær. Í fyrri leiknum í Lissabon var hann með átta mörk úr tíu skotum. Í einvíginu gegn besta liði Þýskalands var Kiko með samtals átján mörk í 22 skotum.

Eldri bróðir hans, Martim, var litlu síðri. Hann skoraði átta mörk í fyrri leiknum og sjö í þeim síðari. Hann er nítján ára og spilar sem skytta vinstra megin.

Kiko skoraði samtals 61 mark í Evrópudeildinni í vetur og Martim fimmtíu. Costa-bræðurnir eru meðal efnilegustu leikmanna Portúgals og styrkja gott portúgalskt landslið enn frekar. Sérstaklega Kiko en hægri skyttustaðan hefur verið sú veikasta hjá portúgalska landsliðinu undanfarin ár.

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk úr tveimur skotum í leiknum í gær áður en hann fór meiddur af velli.

Magdeburg mætir Nantes frá Frakklandi í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Fyrri leikurinn fer fram 26. apríl og sá seinni 3. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×