Frá því er greint á Facebook-síðu Ríkisútvarpsins í dag að Bogi sé hvergi nærri hættur þrátt fyrir að standa á þessum tímamótum. Á dögunum hafi verið gengið frá verktakasamningi við hann um fréttalestur næsta árið. Bætist hann í hóp verktaka hjá Ríkisútvarpinu sem starfa í Efstaleiti.
Morgunblaðið fjallar um feril Boga í tilefni afmælisins. Hann kenndi við Álftamýrarskóla frá 1975-1977 og var fréttamaður hjá Fréttastofu Sjónvarpsins frá 1977-1984. Hann flutti til Kaupmannahafnar árið 1984 og starfaði sem fréttamaður þar og flutti fréttir frá Norðurlöndunum fyrir Ríkisútvarpið til ársins 1986.
Árið 1987 varð hann aðstoðarframkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins. Um nokkurra mánaða skeið árið 1988 var hann blaðafulltrúi Flugleiða, nú Icelandair. Sama ár varð hann fréttastjóri Ríkissjónvarps og gegndi starfinu til ársins 2003. Bogi varð þá forstöðumaður fréttasviðs Ríkisútvarpsins, en lét af því starfi við skipulagsbreytingar 2007. Síðan hefur hann starfað sem frétta- og dagskrárgerðarmaður.
Grjótharður KR-ingur
Bogi hefur ekki aðeins sinnt fréttamennsku í útvarpi og sjónvarpi heldur einnig haldið utan um hina ýmsu þætti. Þar má nefna þættina Viðtalið og Fréttaaukann auk Hringborðsins.
Bogi er einn harðasti KR-ingur landsins og mikill áhugamaður um málefni Norðurlandanna. Hann var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2019 fyrir fjölmiðlastörf og störf sín á vettvangi norrænnar samvinnu. Hann á í dag sæti í orðunefndinni.
Broddi Broddason, félagi Boga á Ríkisútvarpinu og ein þekktasta rödd landsins, lauk störfum á dögunum en hann verður sjötugur í október.
Í frétt Kjarnans á síðasta ári kom fram að félagarnir Bogi og Broddi eru ekki aðeins reynslumestu fréttamenn Ríkisútvarpsins heldur einnig þeir tekjuhæstu. Eðlilega myndu einhverjir segja.