Körfubolti

Lárus: Tekur á að spila gegn Ronny

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þórsarar tryggðu sér sigurinn í kvöld með góðum lokafjórðungi.
Þórsarar tryggðu sér sigurinn í kvöld með góðum lokafjórðungi. Vísir/Bára Dröfn

„Við spiluðum betri vörn og hittum úr sniðskotum,“ sagði Lárus Jónsson þegar hann var spurður að því hvað hans menn í Þór hefðu gert betur undir lokin í leiknum gegn Grindavík en góður lokafjórðungur gerði gæfumuninn fyrir heimamenn í kvöld.

„Ég held það hafi verið einhver sex eða sjö sniðskot sem við brenndum af. Við vorum svolítið að flýta okkur, þegar við vorum komnir fimm stigum undir þá var eins og himinn og jörð væru að farast og við ætluðum að redda málunum aðeins of hratt. Flýttum okkur á hringinn og klúðruðum þessum skotum,“ sagði Lárus þegar Vísir ræddi við hann eftir leik í kvöld.

Þórsarar voru undir lengi vel og það þrátt fyrir að Grindvíkingar hefðu á köflum verið afar mistækir í sókninni og tapað mörgum boltum.

„Við náðum einhverjum auðveldum körfum útaf þessum töpuðu boltum. Vörnin var lek hjá okkur í fyrri hálfleik, við vorum að skilja Kidda (Kristin Pálsson) eftir því við vorum að hjálpa of mikið á sterku hliðinni.“

„Þetta voru grundvallarhlutir en mér finnst þetta góður karakter hjá okkur að klára leikinn. Við vorum að frákasta vel og fá tvöfaldan séns og svo náðum við góðum varnartakti í fjórða leikhluta. Það var erfitt fyrir þá að skora og þeir skoruðu svona einhverjar ævintýrakörfur.“

Ivan Aurrecoechea var að valda Þórsurum vandræðum lengi vel en menn Lárusar náðu að loka vel á hann í fjórða leikhlutanum.

„Hann er frábær leikmaður og er rosalega sterkur. Það tekur á að spila á móti Ronny (Ronaldas Rutkauskas) þannig að einhvern tíman verður hann þreyttur,“ sagði Lárus að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×