Hátíðarmessur fóru fram víða á landinu í dag en Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flutti sína predikun í Dómkirkjunni í Reykjavík fyrir hádegi.
Meðal þess sem biskup talaði um í ávarpi sínu í dag var stríðið í Úkraínu og bar þá stöðu sem nú er uppi við stöðuna fyrir tvö þúsund árum, þegar Jesú Kristur reis upp frá dauðum.
Biskup segir páskana boða upprisuna, lífið, vonina og blessunina og með því sé vonandi hægt að takast á við þau vandamál sem heimurinn stendur frammi fyrir vegna stríðsins.
„Það er náttúrulega ekki eðlilegt hvað illskan er mikil þarna og grimmdin en það gefur manni von um það að það sé hægt að vinna bug á þessu, hægt að setjast að samningsborðinu, og rísa þannig upp til nýs lífs,“ segir biskup.
Þá sé það nauðsynlegt að halda í hefðirnar og trúna, á erfiðum tímum líkt og þeim góðu.
„Það er mjög nauðsynlegt og ég held að til dæmis stríðshrjáðum löndum að þá sé þessi vonarboðskapur mjög mikilvægur fyrir þeim sem búa við þann hrylling sem þar er,“ segir biskup.
Hún bindur vonir við að heimsbyggðin geti komist í gegnum erfiðleikana með trúnna að vopni.
„Við lifum alltaf í þeirri von að staðan batni og það er það eina sem við getum haldið í nú um stundir til dæmis í sambandi við stríðið í Úkraínu, lifað í þeirri von að ástandið batni,“ segir biskup.