Páll Magnússon fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins greindi frá því fyrir nokkrum vikum að kunningi sinn hafi hafi grætt tíu milljónir á innan við sólarhring með því að selja bréf í Íslandsbanka sem hann keypti í útboði Bankasýslunnar í mars. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði um málið á Sprengisandi fyrir viku:
„Hvernig stendur á því að blaðamenn flytja svona vitleysu umbúðalaust og fleyta þessu áfram í umræðuna þegar allir vita að í fyrsta lagi var uppgjörsdagur á mánudegi og útboðið fór fram á þriðjudegi? Það gat enginn selt daginn eftir,“ sagði Bjarni.
Páll segir að þarna sé verið að afvegaleiða umræðuna.
„Fjármálaráðherra hélt því ranglega fram í útvarpsþætti að það hafi ekki verið hægt að selja bréfin daginn eftir, en það var augljóslega hægt bæði innan Kauphallar og utan. Það sem ég benti á var að það var hringt í kunningja minn að kvöldi og honum boðið bréfin á afslætti og þar með að taka snúning á þessum hlutabréfum og selja þau svo með skjótfengnum hagnaði daginn eftir. Um það snerist málið þ.e. aðferð Bankasýslunnar við söluna en ekki aðferð kunningja míns við að selja bréfin. Og það er spurning sem vaknar eða með hvaða hætti voru þeir valdir nokkrir tugir manna eða hundrað sem hringt var í kvöldi 22. mars og þeim boðið að kaupa þessi bréf á afslætti, það er stóra spurningin í málinu, hvernig voru þeir valdir?“ segir Páll.
Hann segir áskorun að ná aftur upp trausti á fjármálakerfinu og stjórnsýslu.
„Það þarf einhvern veginn að reyna að endurvinna þetta traust aftur. Aðferðafræðin við þessa sölu var ekki góð og ekki heilsteypt eins og sést á viðbrögð almennings á þessu og það er mesta áhyggjuefnið nú tap á trausti og trúverðugleika,“ segir hann.
Styður Sjálfstæðisflokk á landsvísu en var ekki boðið sæti
Páll er í oddvitasæti á H-lista fyrir næstu sveitastjórnarkosningar í Vestmannaeyjum. Aðspurður um hvort hann sé hættur í Sjálfstæðisflokknum svarar hann.
„Ég styð Sjálfstæðisflokkinn á landsvísu. Ég var hins vegar sjálfkrafa afskráður úr flokknum við að bjóða mig fram fyrir H-lista,“ segir hann.
Inntur eftir hvort honum hafi verið boðið að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðismanna fyrir sveitastjórnarkosningarnar í Vestmannaeyjum svarar Páll.
„Nei.“