Fótbolti

„Ef maður leiksins er einn af okkar mönnum þá eigum við séns“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Unai Emery hefur ekki gefið upp alla von um að koma Villareal í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Unai Emery hefur ekki gefið upp alla von um að koma Villareal í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Sebastian Widmann - UEFA/UEFA via Getty Images

Unai Emery og lærisveinar hans í Villarreal eiga erfitt verkefni fyrir höndum þegar liðið tekur á móti Liverpool í síðari leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Liverpool vann fyrri leikinn 2-0 og Emery segir að sínir menn þurfi að spila fullkomin leik til að snúa taflinu sér í hag.

Mörk frá Jordan Hendarson og Sadio Mané með stuttu millibili snemma í síðari hálfleik sáu til þess að Liverpool er með tveggja marka forskot fyrir leikinn á Spáni í kvöld.

Eins og áður segir gerir þessi fyrrum stjóri Arsenal sér fyllilega grein fyrir því að liðið á gríðarlega erfitt verkefni fyrir höndum gegn einu besta liði heims um þessar mundir. Spánverjinn hefur þó ekki gefið upp alla von um að koma Villarreal í úrslitaleikinn enn.

„Þetta verður erfitt verkefni en við erum að vinna í því að undirbúa okkur fyrir leikinn,“ sagði Emary á blaðamannafundi í dag.

„Við þurfum að eiga framúrskarandi leik á ýmsum sviðum til að afreka eitthvað sem mögulega enginn hefur gert áður, sem væri endurkoma af þessari stærðargráðu.“

Hann segir að á þessu tímabili hafi engu liði tekist að finna veikleika á Liverpool og að til að eiga möguleika megi maður leiksins ekki vera í liði andstæðinganna.

„Við munum reyna að finna veika bletti á þessu Liverpool liði. Eitthvað sem enginn hefur gert á þessu tímabili.

„Ef maður leiksins er aftur leikmaður Liverpool þá munum við klárlega falla úr leik. En ef maður leiksins er einn af okkar mönnum þá eigum við séns,“ sagði Emery að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×