Í greinargerð með tillögu borgarstjóra kemur fram að uppbygging á ferðaþjónustu á svæðinu sé í samræmi við aðalskipulag, ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar og áform Reykjavíkurborgar í Græna planinu um styrkingu á svæðum í námunda við græna trefilinn og helstu útivistarsvæði borgarinnar.
Berjaya Land Berhad, fyrirtæki í eigu Vincent Tan, á og rekur í gegnum dótturfélög sín fasteignaþróunar- og fasteignafélög, hótel og aðra gistitengdaþjónustu. Berjaya hefur í hyggju að byggja upp fimm stjörnu hótel við Kýrhólaflóa, sem er hluti af eyðibýlinu Stardalur undir merkjum Four Seasons.
Gert er ráð fyrir að á hótelinu verði heilsulind, baðlón og öllu því sem tilheyrir fimm stjörnu ferðaþjónustu. Áhersla yrði lögð á kyrrð, heilsu og útivist. Um yrði að ræða mikla fjárfestingu og fjölmennan vinnustað, segir í greinargerð borgarstjóra.
Í bréfi frá Berjaya segir að um 250 herbergi verði á hótelinu en einnig lítil hús fyrir einkagesti. Þarna verði einblínt á ferðamennsku að vetri til í samstarfi við skíðasvæðið í Skálafelli.
Alex Tan Ghee Keong, fulltrúi Berjaya Land Berhard í verkefninu, skrifar undir yfirlýsinguna ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Vincent Tan er eigandi knattspyrnufélagsins Cardiff City sem um tíma spilaði í ensku úrvalsdeildinni þegar Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði lék með liðinu.
Berjaya hefur þegar fjárfest töluvert hér á landi en í fyrra gekk fyrirtækið frá kaupum á Icelandair Hotels.