Handbolti

Góður gærdagur hjá Viðarssonum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elliði Snær og Arnór Viðarssyni gátu báðir fagnað í gær.
Elliði Snær og Arnór Viðarssyni gátu báðir fagnað í gær. vísir/hulda margrét/vilhelm

Óhætt er að segja að gærdagurinn hafi verið góður fyrir handboltabræðurna úr Vestmannaeyjum, Elliða Snæ og Arnór Viðarssyni.

Elliði og félagar hans í Gummersbach tryggðu sér sæti í þýsku úrvalsdeildinni í gær. Þeir spiluðu reyndar ekki sjálfir en úrslit annarra leikja þýddu að þeir eru komnir aftur í deild þeirra bestu.

Elliði er á sínu öðru tímabili hjá Gummersbach. Þar leikur hann undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar. Annar Eyjamaður er í herbúðum Gummersbach, Hákon Daði Styrmisson, en hann er frá keppni eftir að hafa slitið krossband í hné í desember.

Yngri bróðir Elliða, Arnór, átti skínandi góðan leik þegar ÍBV komst í úrslit Olís-deildarinnar með sigri á Haukum, 34-27, í Eyjum í gærkvöldi. Arnór skoraði fimm mörk úr sjö skotum og var að venju öflugur í vörninni.

Arnór hefur leikið sérlega vel í úrslitakeppninni þar sem hann er búinn að skora 25 mörk í sex leikjum. Til samanburðar skoraði hann 36 mörk í 22 leikjum í Olís-deildinni.

Í úrslitunum mæta Eyjamenn Íslands-, bikar- og deildarmeisturum Valsmanna sem hafa unnið alla fimm leiki sína í úrslitakeppninni, flesta mjög örugglega. Þetta verður í fyrsta sinn sem þessi lið mætast í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×