Leiðtoginn, Kim Jong-un, hefur þegar heitið því að vinna bug á faraldrinum eins fljótt og auðið er en ríkismiðlar greina frá því að smit hafi komið upp hjá fólki í höfuðborginni Pyongyang.
Ekki er ljóst hversu margir hafa verið greindir en hingað til hafa Norður-Kóreumenn haldið því fram að ekki einn einasti landsmaður hafi greinst smitaður af veirunni frá upphafi heimsfaraldursins fyrir rúmum tveimur árum.
Fáir sérfræðingar hafa reyndar lagt trú á þær fullyrðingar, þótt landið sé eitt það lokaðasta í heimi.
Sérfræðingar óttast hins vegar útbreiðslu faraldursins nú, því fáir landsmanna hafa verið bólusettir fyrir veirunni. Þá er einnig talið víst að heilbrigðiskerfi landsins sé illa í stakk búið til að takast á við slíkt ástand.