„Við höfum fundið mikla orku og mikla gleði, mikla jákvæðni og það hefur bara sjaldan legið jafn vel á mér,“ sagði Ásmundur Einar þegar Kristín Ólafsdóttir fréttamaður náði af honum tali í kosningateiti Framsóknar.
Ætlar þú að taka vel á því í kvöld?
„Ég ætla að vera hérna með mínu fólki , hér er að koma saman Reykvíkingar, Garðbæingar og Kópavogsbúar og síðan ætla að ég að kíkja aðeins í Hafnarfjörð og Mosfellsbæ. Þannig að já, ég ætla að taka hressilega á því.“
Bjart yfir Framsókn
Framsóknarmenn hafa ríka ástæðu til að vera bjartsýnir í Reykjavík en dæmi eru um að flokkurinn, sem á nú engan fulltrúa í borgarstjórn, hafi mælst með fjóra borgarfulltrúa inni í könnunum.
„Ég er mjög ánægður með þetta og við erum bara að byggja upp. Það er orka í þessu og það er gleði og það var það sem var lagt upp með í þessari kosningabaráttu, það er að vera málefnaleg, halda okkar málstað, vera ekki að ráðast á andstæðingana. Það er að skila sér og þetta er bara skemmtilegt.“
Ásmundur Einar vildi ekkert gefa upp um það hvaða flokka hann vilji sjá saman í meirihluta í Reykjavík og sagði það Einars Þorsteinssonar, oddvita flokksins, að svara fyrir það.
Þú hefur enga skoðun á því?
„Eins og ég segi, við erum bara gott lið og gott teymi hérna í Reykjavík og Einar heldur á þessum bolta.“ Að sjálfsögðu vilji Framsóknarmenn komast í meirihlutasamstarf á sem flestum stöðum á landinu.