Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá mynd sem Veðurstofan birti í dag en hún sýnir þann stóra gúl sem hefur verið að myndast í jarðlögunum norðan- og norðvestan Grindavíkur síðustu þrjár vikur.
„Landrisið er á fullri ferð núna. Þetta er ekki hratt, sérstaklega. Þetta eru tveir millimetrar á dag. En ef það heldur lengi áfram þá getur þetta orðið að gosi,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur en minnir um leið á að fyrir tveimur árum sáu menn tvöfalt meira landris á þessum sama stað sem ekki olli gosi.

Núna streymi kvika upp af miklu dýpi og safnist fyrir í láréttum laggangi.
„Þannig að þetta staðfestir að það er kvikusöfnun í gangi á fjögurra til fimm kílómetra dýpi. En staðfestir líka að þessi gangur hefur ekkert hlaupið út undan sér ennþá,“ segir Páll.
Ef eldgos eigi að verða þurfi kvikan að finna sér lóðréttan gang upp til yfirborðs.
„Það gæti þá tekið hana stuttan tíma að komast upp á yfirborð og leiða til goss. En það er greinilega ekki komið að því ennþá.“
Páll segir myndina þó ekki endilega sýna líklegastan gosstað.

„Mestar goslíkur að mínu mati eru í sprungusveimnum sem liggur út frá þessu svæði, til norðausturs eða til suðvesturs. Hann liggur upp í Vogaheiði til norðausturs, vestur þar.
Hann fer þá undir Svartsengi og til norðausturs, undir Arnarseturshraunið og upp í Vogaheiðina,“ segir Páll Einarsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: