Fótbolti

HK sýndi mátt sinn og megin í seinni hálfleik

Hjörvar Ólafsson skrifar
Atli Arnarson skoraði eitt marka HK úr vítaspyrnu. 
Atli Arnarson skoraði eitt marka HK úr vítaspyrnu.  Vísir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

HK vann sannfærandi 3-1 sigur þegar liðið fékk Þór Akureyri í heimsókn í Kórinn í Kópavoginn í sjöttu umferð Lengjudeildar karla í fótbolta í dag. 

Það voru reyndar gestirnir að norðan sem náðu forystunni í leiknum en þar var að verki Aron Ingi Magnússon sem renndi boltanum í autt markið eftir sendingu frá Elvari Baldvinssyni. 

HK-ingar jöfnuðu metin strax í upphafi seinni hálfleiks en Atli Arnarson skoraði þá af vítapunktinum. 

Arnþór Ari Atlason skilaði svo fyrirgjöf Hassan Jalloh í netið skömmu síðar og kom HK yfir. Jalloh kom inná sem varamaður í hálfleik og hleypti krafti í sóknarleik heimamanna. 

Stefán Ingi Sigurðarson nýtti sér svo mistök í vörn Þórsara og gulltryggði þriðja sigur HK i röð í deild og bikar. 

Þór er hins vegar í slæmum málum en liðið hefur ekki haft betur í síðustu sex leikjum sínum. Þór hefur í þessum leikjum beðið ósigur í þremur deildarleikjum og gert tvö jafntefli. Þá laut Þórsliðið í lægra haldi fyrir Dalvík/Reyni í 32 liða úrslitum Mjólkubikarsins. 

HK hefur níu stig í sjötta sæti deildarinnar eftir þennan sigur en liðið er fmm stigum á eftir Selfossi sem trónir á toppnum. HK á leik til góða á Selfyssinga. 

Þór er aftur á móti í níunda sæti deildarinnar með fimm stig eftir sex leiki. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×