Ýmsir mælikvarðar benda til þess að hagstæðarasé að vera á leigumarkaði nú en oft áður hér á landi. Þetta sýnir ný skýrsla Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar.
„Í raun og veru þá hefur leiguverð ekki náð að halda í við verðlag og frá upphafi þá hefur aldrei lægst sem lægra hlutafall af launum. það hafa bara verið mjög rólegar hækkanir. Ég átta mig svo sem ekki á því hvers vegna umfjöllunin hefur verið með þessum hætti sem hún hefur verið því allir okkar mælikvarðar benda til þess að það hafi verið óvenjulega gott að vera á leigumarkaði,“ segir Kári S. Friðriksson hagfræðingur.
Þetta þýði þó ekki að það séu ekki hópar á leigumarkaði sem hafi það talsvert slæmt. Í alþjóðlegum samanburði sé leigumarkaðurinn á Íslandi - heilt yfir - óþroskaður og bjóði ekki upp á stöðugleika fyrir leigjendur.
„Við erum með árlega leigukönnun sem er að fara í gang en samkvæmt henni þá eru margir sem hafa þurft að flytja, sjö, átta, og jafnvel níu sinnum á síðustu tíu árum.“
En ég velti fyrir mér hvort það sé ekki merki um heilbrigði að leiguverð hafi ekki hækkað jafn mikið og fasteignaverð sem hefur náttúrulega blásið óhóflega út?
„Leiguverð þarf ekki alltaf að fylgja fasteignaverði. Ég held að helsta skýringin þarna sé bara sú að fjármagnskostnaðurinn við að eiga íbúð hefur ekki hækkað jafn mikið og fasteignaverð af því að vextir eru ennþá töluvert lægri en þeir voru yfir langt skeið þannig að jafnvel þótt fasteignaverð hafi hækkað þá er greiðslubyrði af lánum minni en þau hafa oft verið.“
Þrýstingur á leigumarkaði gæti þó aukist þegar fram líða stundir.
„Ég býst svo sem ekki við að leiguverð muni verða jafn hátt hlutfall af fasteignaverði og það var hér áður fyrr en hins vegar nú þegar stýrivextir eru að hækka, ferðaþjónustan er að koma til baka ásamt mikilli fólksfjölgun þá gæti þrýstingurinn á leigumarkaðinn aukist og við gætum farið að sjá meiri verðhækkanir þar en hafa verið.“