Olíuverð hækkaði mikið fyrr á árinu í kjölfar stríðsins í Úkraínu. Í mars síðastliðnum hafði olíuverð ekki verið hærra en síðan 2008 þegar það náði sögulegu hámarki. Þá bönnuðu Bandaríkjamenn og Bretar innflutning á rússneskri hráolíu í refsingarskyni fyrir innrásina í Úkraínu.
Undir lok maí tók olíuverð svo aftur kipp þegar ESB lagði innflutningsbann við olíu frá Rússlandi. Síðan þá hefur olíuverð hins vegar lækkað töluvert og er nú komið niður í um 109 bandaríkjadali á tunnu.
Baráttan gegn verðbólgu hafi áhrif
Dan Yergin, hagfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, segir í viðtali við CNBC að ástæður fyrir lækkunum á olíuverði séu tvær. Annars vegar áherslur bandaríska seðlabankans á að lækka verðbólgu og hins vegar að Vladimír Pútín sé búinn að útvíkka stríðið í Úkraínu í efnahagslegt stríð gegn Evrópu.
Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði á fimmtudag að bankinn legði skilyrðislaust áherslu á að halda taumhaldi á verðbólgu. Vestanhafs hafa þær yfirlýsingar aukið áhyggjur fólks um stýrivaxtahækkanir.
Hérlendis hefur verðbólga ekki verið meiri í tólf ár og í fyrradag hækkaði Seðlabanki Íslands stýrivexti til að mæta henni. Meginvaxtar bankans hafa hækkað hratt á undanförnum mánuðum og eru vextir á sjö daga bundnum innlánum nú 4,75 prósent.