Handbolti

Staffan Olsson tekur við hollenska landsliðinu af Erlingi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Staffan Olsson hefur verið ráðinn þjálfari hollenska landsliðsins í handbolta.
Staffan Olsson hefur verið ráðinn þjálfari hollenska landsliðsins í handbolta. Axel Heimken/picture alliance via Getty Images

Sænski handknattleiksþjálfarinn Staffan Olsson hefur verið ráðinn þjálfari hollenska landsliðsins í handbolta. Olsson tekur við starfinu af Erlingi Richardssyni.

Frá þessu er greint á heimasíðu hollenska handknattleikssambandsins. Olsson tekur við liðinu í byrjun september og verður fyrsti leikur liðsins undir hans stjór gegn Belgíu í undankeppni EM gegn Belgíu.

Staffan Olsson er einnig nafn sem Íslendingar ættu að kannast ágætlega við. Hann þjálfaði sænska landsliðið frá 2008 til 2016, á þeim tíma sem hin fræga Svíagrýla lék íslenska landsliðið grátt. Undir stjórn Olsson vann sænska liðið til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum árið 2016.

Þá hefur þessi 58 ára þjálfari einnig náð góðum árangri með félagsliðum sínum. Hann vann þrjá titla með sænska liðinu Hammarby á árunum 2005 til 2011 og þá varð PSG bæði lands- og bikarmeistari undir hans stjórn á árunum 2015 til 2018.

Olsson var einnig reynslumikill leikmaður á sínum yngri árum, en alls lék hann 357 leiki fyrir sænska landsliðið. Með landsliðinu vann Olsson til þriggja silfurverðlauna á Ólympíuleikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×