Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Eins og fjallað hefur verið um var töluverður fjöldi við eldgosið í gær.
Björgunarsveitir voru til taks í gærkvöldi og segir í tilkynningunni að nokkrir ferðamenn hafi þurft á aðstoð að halda vegna smávægilegra meiðsla.
Komið hefur fram að gönguleiðin að eldgosinu sé erfið, en um tvo klukkutíma tekur að ganga að gosstöðvunum.
Vekur lögreglan athygli á því að borið hafi á því að leiðsögumenn hafi sýnt tilmælum viðbragðsaðila lítinn skilning þegar „vaðið var að stað með ferðamenn sem voru illa undir það búnir að leggja í erfiða göngu,“ líkt og það er orðað í tilkynningunni.
Biðlar lögreglan til allra þeirra sem leggja leið sína að eldgosinu að taka fullt tillit til leiðbeininga og fyrirmæla frá viðbragðsaðilum á vettvangi.