Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu íslands, mun mæta í settið og ræða gosið og möguleika á nýjum sprungum á svæðinu í fréttatímanum og þá förum við vandlega yfir gasmengun en líkur eru á töluverðri gasmengun í Vogum og í Reykjanesbæ í sunnanáttinni í kvöld og ekki ólíklegt að íbúar þar finni gaslykt í bænum. Starfandi sóttvarnalæknir segir gasmengun alvarlegt mál, sem hefur áhrif á heilsu fólks.
Í fréttatímanum ræðir Fanndís Birna, fréttamaður okkar, einnig við fjölskyldu sem lenti í því á dögunum að verða fyrir koltvísýringseitrun í fellihýsi sínu og aðeins sekúndum mátti muna að öll fjölskyldan léti lífið.
Hinsegin dagar eru í fullum gangi og við tökum auðvitað púlsinn á þeim. Við ræðum við Pál Óskar sem er að leggja lokahönd á vagninn sinn fyrir Gleðigönguna á morgun og greinum frá nýrri rannsókn BHM sem sýnir að samkynhneigðir karlmenn eru með þriðjungi lægri árslaun en gagnkynhneigðir menn.
Þetta og margt fleira í stútfullum fréttapakka á samtengdum rásum Stöðvar 2 og Bylgjunnar klukkan hálf sjö.