Þetta kemur fram í stöðugskýrslu Samhæfingarstöðvar almannavarna sem birt var í gær. Þar segir að áhersla verði áfram lögð á að laga göngu- og neyðarleiðir á svæðinu. Ratljós séu nú komin á alla gönguleið A þar sem mest hættan var á að fólk villtist. Ljósin eru festar við stikur við gönguleiðina og sjást í slæmu skyggni en lýsa ekki upp gönguleiðina sjálfa.
Fram kemur í skýrslunni að enn sé þörf á að ferðafólk hafi með sér eigin ljós að kvöld- og næturlagi. Enn þurfi þá að laga rúman kílómetra af leiðinni til viðbótar til að öll leiðin sé rudd fyrir viðbragðsaðila og göngufólk.
Fram kemur að frá 3. ágúst til 17. ágúst hafi þurft að leita að 15 á svæðinu og flytja hafi þurft 93 vegna meiðsla. Ökklameiðsl hafi þar verið algengust. Örmögnun og ofkæling sé sömuleiðis tíð. Á sama tímabili hafi þá 390 björgunarsveitarmenn úr 31 björgunarsveit staðið vakt á svæðinu.
Brunavarnir Suðurnesja merki þá töluverða aukningu á útköllum vegna sjúkraflutninga eftir að gos hófst og útköllin vari þá alla jafnan lengur en áður, eða um fjórar til fimm klukkustundir. Fyrir Grindavíkursvæðið sé aukningin úr 10 upp í 17 prósent af heildarútköllum í sjúkraflutningum á svæðinu.