Í könnun SVT/Novus mælast Svíþjóðardemókratar með 21,5 prósent fylgi, á meðan Moderaterna, sem hefur verið stærsti flokkurinn á hægri væng stjórnmála, mælist með 17,4 prósent fylgi.
Jafnaðarmannaflokkurinn, sem leiðir minnihlutastjórn í landinu með stuðningi Miðflokksins, Vinstriflokksins og Græningja, mælist í könnuninni með 27,8 prósenta fylgi.
Þingkosningar fara fram í Svíþjóð 11. september næstkomandi, en líkt og eftir síðustu kosningar reikna magir með að erfiðlega gæti reynst að mynda nýja ríkisstjórn. Ein helstu tíðindin á kjörtímabilinu, sem senn er á enda, er að hægriflokkarnir Moderaterna, Frjálslyndir og Kristilegir demókratar, hafa opnað á samstarf við Svíþjóðardemókrata, sem barist hafa gegn straumi innflytjenda til landsins, eftir að hafa fram til þess lokað á slíkt samstarf.

Miðflokkurinn, sem áður var hluti af borgaralegu blokkinni í sænskum stjórnmálum, ákvað að verja ríkisstjórn Jafnaðarmanna og Græningja vantrausti eftir kosningarnar 2018, eftir að stjórnarmyndunarviðræður drógust mjög á langinn. Eftir það hefur andað nokkuð köldu milli Miðflokksmanna og borgaralegu blokkarinnar.
Könnun SVT/Novus (fylgi flokkanna í þingkosningum 2018 er að finna innan sviga)
- Moderaterna: 17,4 prósent (19,8)
- Frjálslyndi flokkurinn: 4,4 prósent (5,5)
- Miðflokkurinn: 6,7 prósent (8,6)
- Kristilegir demókratar: 6,0 prósent (6,3)
- Jafnaðarmannaflokkurinn: 27,8 prósent (28,3)
- Vinstriflokkurinn: 9,6 prósent (8,0)
- Græningjar: 5,5 prósent (4,4)
- Svíþjóðardemókratar: 21,5 prósent (17,5)
- Aðrir flokkar: 1,1 prósent
- Óvissir: 5,8 prósent