Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, segir í samtali við Mbl.is að framburður karlmannsins, Kára Kárasonar, sé mikilvægur fyrir rannsókn málsins. Reikna megi með því að rætt verði aftur við Kára á síðari stigum rannsóknarinnar.
Fram kemur í frétt Mbl að Kári sé á sjúkrahúsi og veikburða. Ástand hans hafi þó verið metið nógu gott til að gefa lögreglu skýrslu um atburðarásina á heimili hans á Blönduósi fyrir rúmri viku.
Tveir hafa stöðu sakbornings í málinu að sögn Páleyjar. Samkvæmt heimildum fréttastofu er annars vegar um að ræða Brynjar Þór Guðmundsson, sem grunaður er um að hafa ráðist inn á heimili Kára og eiginkonu hans vopnaður skotvopni.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er talið að atburðarásin hafi verið á þann veg að Brynjar Þór skaut Evu Hrund Pétursdóttur til bana og særði Kára alvarlega.
Uppkominn sonur hjónanna, sem talinn er hafa í framhaldinu stöðvað vopnaðan árásarmanninn, hefur einnig stöðu sakbornings hjá lögreglu. Samkvæmt heimildum fréttastofu var hann gestur á heimili foreldra sinna ásamt unnustu og ungu barni. Sonurinn var handtekinn ásamt unnustu sinni á vettvangi og tekin af þeim skýrslu. Þeim var báðum sleppt samdægurs úr haldi.