Magnús Aron, sem bjó í sama húsi og nágranninn sem hann banaði, neitaði sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudaginn. Dómari í málinu hafnaði kröfu verjanda um að þinghald yrði lokað. Matsmaður verður fenginn til að meta sakhæfi Magnúsar Arons.
Í ákærunni kemur fram að Magnús Aron hafi veist að Gylfa Bergmann Heimissyni. Fyrst á stigagangi hússins við Barðavog og svo utan við húsið. Þegar þangað var komið hafi Magnús Aron sparkað í og kýlt Gylfa, náð honum í jörðina og þar sem hann lá á jörðinni kýlt, sparkað og traðkað margsinnis á honum. Þar á meðal andliti og brjóstkassa með þeim afleiðingum að Gylfi hlaut húðblæðingar og mar í andliti og hálsi, brot á neðri kjálka, kinnbeinum, nefbeinum og tungubeini.
Þá hlaut hann brot í höfuðkúpu og útbreitt heilamar og mikil sár á andliti. Sömuleiðis hlaut hann blæðingar í vöðvum aftanverðs háls. Hann lést af völdum höfuðáverkans með kjölfarandi umfangsmiklu heilamari og áverka á andliti sem torveldaði öndun.
Níu aðstandendur hins látna gera miskabótakröfur í málinu upp á samanlagt 27 milljónir króna, þrjár milljónir króna hver. Þá eru gerðar kröfur fyrir hönd ólögráða barna Gylfa vegna missis á framfærslu. Krafist er að Magnús Aron greiði útfararkostnað og sömuleiðis málskostnað málsins.