Íslenska liðið var í sams konar stöðu í aðdraganda síðasta heimsmeistaramóts en fékk þá aðeins eitt stig úr heimaleikjum við Þýskaland og Tékkland, og féll úr leik.
„Liðið hefur þroskast og breyst mikið frá því síðast þegar við vorum í þessari stöðu, þannig að ég hef mjög mikla trú á að við náum að fara beint á HM ef við fáum fram okkar bestu hliðar á morgun. Þetta verður erfiður og krefjandi leikur en við erum tilbúnar,“ sagði Sara á blaðamannafundi í dag.
Ísland tapaði 2-0 á heimavelli gegn Hollandi fyrir ári síðan en samt er það þannig að Íslandi dugar jafntefli á morgun til að enda efst í sínum riðli og komast beint á HM. Það er vegna þess að Holland gerði jafntefli í báðum leikjum sínum við Tékkland.
Komin sjö mánuði á leið síðast
Sara var ekki með í tapinu gegn Hollandi í fyrra, enda þá ólétt af sínu fyrsta barni sem fæddist í nóvember.
„Ég man rosalega lítið eftir að ég varð ólétt,“ sagði Sara létt í bragði þegar hún var spurð hverju hún myndi best eftir frá leiknum við Holland í fyrra.
„Nei, nei. Ég man eftir þessum leik. Mér fannst hollensku stelpurnar vera þá aðeins betri, og þær unnu 2-0, en við vorum samt að búa til færi. Eftirminnilegast fannst mér að Sveindís fór mikið upp hægri kantinn og kom með fyrirgjafir. En það er kannski á pappír þannig, og hollenska liðið hefur sýnt það, að þær eiga að vera betri en við eru með frábært lið núna og eigum mikla möguleika ef við eigum okkar besta dag,“ sagði Sara.
Ísland og Holland mætast á morgun í Utrecht í úrslitaleik um öruggt sæti á HM. Leikurinn hefst klukkan 18:45 að íslenskum tíma. Tapliðið fer í umspil. Vísir er á staðnum og flytur fréttir heim af stelpunum okkar.