Fótbolti

Fagnaði með grímu og gerði þjálfarann sinn brjálaðan

Sindri Sverrisson skrifar
Chovanie Amatkarijo tók upp appelsínugula grímu og setti á sig þegar hann fagnaði marki.
Chovanie Amatkarijo tók upp appelsínugula grímu og setti á sig þegar hann fagnaði marki. Skjáskot/Discovery+

Chovanie Amatkarijo skoraði bæði mörk Östersund í dýrmætum sigri gegn Örebro í sænsku 1. deildinni í fótbolta um helgina en gerði þjálfara sinn samt foxillan.

Amatkarijo ákvað að fagna seinna marki sínu í leiknum með því að setja á sig appelsínugula grímu. Fyrir það fékk hann gult spjald og þar sem að þetta var þriðja áminning hans á tímabilinu fékk hann eins leiks bann í kjölfarið.

Þrátt fyrir sigurinn er Östersund í fallsæti, næstneðst í deildinni og enn fimm stigum á eftir næstu liðum; Norrby og Örgryte sem leikur undir stjórn Brynjars Björns Gunnarssonar.

Magnus Powell, þjálfari Östersund, sagði alveg ljóst að Amatkarijo yrði skammaður fyrir háttalag sitt:

„Þetta var algjör vitleysa, hann fagnaði með grímu. Og hann verður í banni í næsta leik. Við þurfum að eiga langt samtal,“ sagði Powell við Östersunds-Posten.

Sjálfur sagðist Amatkarijo hafa verið að vísa í japanska teiknimyndaseríu með fagnaðarlátum sínum:

„Mér finnst gaman að horfa á mangaseríu sem kallast Naruto og þess vegna fagnaði ég svona,“ sagði Amatkarijo en sú afsökun féll ekki beinlínis vel í kramið hjá Powell:

„Það skiptir ekki máli því þetta er djöfulsins ömurleg hegðun. Framtíð alls félagsins er í húfi,“ sagði Powell.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×