Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að ekki er nema rúmur áratugur frá því dapurt var yfir atvinnumálum í Skagafirði. Fólki fækkaði en sveitarstjórinn Sigfús Ingi Sigfússon segir Sauðárkrók hafa farið illa út úr niðurskurði ríkisins eftir bankahrunið 2008.

„Hér fækkaði um tugi opinberra starfa. Ég held að það hafi verið yfir fimmtíu stöðugildi. Og íbúum fækkaði mjög á tímabili,“ segir Sigfús.
Sveitarfélagið hafi brugðist við með ýmsum aðgerðum, eins og að fella niður gatnagerðargjöld.
„En núna er svo komið að hér er bara byggt og byggt og byggt. Núna eru í byggingu í Skagafirði á milli fimmtíu og sextíu íbúðir á mismunandi byggingarstigum,“ segir sveitarstjórinn.

Sigfús segir að um tíma hafi sveitarfélagið vart haft undan við að skipuleggja nýjar lóðir en gríðarleg áhersla hafi verið lögð á skipulagsmál.
„Það er verið að byggja hér á Króknum. Það er verið að byggja í dreifbýlinu. Það er verið að byggja í Varmahlíð. Við erum að klára deiliskipulag á Hofsósi. Þannig að við erum svona að ná að klára að útbúa lóðir fyrir þessa eftirspurn.“

Sigfús segir að bara frá því í vor hafi íbúum Skagafjarðar fjölgað um tuttugu til þrjátíu manns. Það gleðilega sé að fólki fjölgi einnig í dreifbýlinu.
Hann segir atvinnulíf í Skagafirði sterkt og fjölbreytt. Einnig hafi sveitarfélagið fjárfest í innviðum, eins og með lagningu hitaveitu og ljósleiðara í dreifbýli.
„Og það bara sýnir sig að fólksfjölgunin bara eltir þessar framkvæmdir. Fólk getur í dag valið hvar það vill búa. Það hefur þessi tækifæri; það hefur heita vatnið, ljósleiðarann, getur unnið hvar sem er störf án staðsetningar. Þetta skiptir máli.“

Þjónusta við íbúana skipti einnig máli.
„Það er gleðilegt að segja frá því að núna í haust erum við að taka við á leikskólum - hér á Sauðárkróki, Hofsósi, Varmahlíð, Hólum - börn frá tólf mánaða aldri. Það er bara mjög ánægjulegt að geta mætt þessari þjónustuþörf,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: