Körfubolti

Liðið orðið klárt hjá KR-ingum

Sindri Sverrisson skrifar
Roberts Freimanis er hér til varnar í leik með VEF Riga í Meistaradeild FIBA árið 2020.
Roberts Freimanis er hér til varnar í leik með VEF Riga í Meistaradeild FIBA árið 2020. Getty

KR-ingar eru orðnir fullmannaðir fyrir komandi keppnistímabil í Subway-deild karla í körfubolta, að sögn Helga Más Magnússonar þjálfara liðsins. Síðasti púslbitinn er frá Lettlandi.

KR greindi í gær frá komu hins 31 árs gamla Roberts Freimanis. Hann er framherji sem lengst af hefur leikið heima í Lettlandi eða Eistlandi en lék á síðasta tímabili í búlgörsku úrvalsdeildinni þar sem hann skoraði að meðaltali 10,9 stig í leik, tók 6,5 fráköst og gaf 1,8 stoðsendingu.

Freimanis er 205 sentímetrar og býr yfir reynslu af leikjum í Evrópukeppnum með Ventspils og VEF Riga.

„Roberts er reynslumikill leikmaður sem gefur okkur aukna hæð og styrk inn í teig,“ segir Helgi þjálfari KR á vef félagsins.

„Við hlökkum til að fá Roberts til okkar á næstu dögum og vera þar með fullmannað lið fyrir komandi tímabil,“ segir Helgi.

KR hafði áður sótt Saimon Sutt til Eistlands, franska kraftframherjann Jordan Semple og Bandaríkjamanninn Michael Mallory sem lék með Hetti frá Egilsstöðum tímabilið 2020-21. Þá kom Þorsteinn Finnbogason frá Álftanesi en hann er þekktari fyrir að hafa spilað með uppeldisfélagi sínu Grindavík.

KR missti hins vegar hinn sigursæla Brynjar Þór Björnsson, sem lagði skóna á hilluna í sumar, og þá fór hinn ungi og efnilegi Almar Orri Atlason, sem vakti mikla athygli á EM U18 í sumar, til Bandaríkjanna til að spila með menntaskólaliði Sunrise Christian Academy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×