Leikur kvöldsins var góð skemmtun, hraðinn var mikill og bæði lið spiluðu frábæran körfubolta. Spánverjar byrjuðu betur en svo tóku Þjóðverjar öll völd á vellinum. Þeir leiddu í hálfleik, staðan þá 51-46.
Þriðji leikhluti var mjög jafn en að honum loknum höfðu Þjóðverjar bætt forystu sína um eitt stig og voru því í góðum málum fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Hvað gerðist í leikhléinu milli leikhluta er alls óvíst en Spánverjar spiluðu frábærar vörn sem og sókn á meðan ekkert gekk upp hjá Þjóðverjum.
Þýska liðið gat vart skorað körfu til að bjarga lífi sínu á meðan Spánn raðaði inn. Á endanum fór það svo að Spánverjar unnu leikhlutann með 11 stiga mun og leikinn með fimm stiga mun, lokatölur 96-91.
THE WORLD CHAMPS ARE HEADING TO THE #EUROBASKET FINAL #BringTheNoise pic.twitter.com/9ClSt3pegJ
— #EuroBasket 2022 (@EuroBasket) September 16, 2022
Lorenzo Dontez Brown var stigahæstur í liði Spánar með 29 stig. Hann gaf einnig sex stoðsendingar. Þar á eftir komu bræðurnir Willy Hernangómez með 16 stig og Juancho Hernangómez með 13 stig. Hjá Þýskalandi var Dennis Schröder stigahæstur með 30 stig.