Keppt er í fjórum riðlum í Úrvalsdeildinni og kemst einn áfram úr hverjum riðli á úrslitakvöldið sem fram fer í desember. Í gær var það Arnar Geir sem fór með sigur af hólmi en hér að neðan má sjá sigurköst hans í leikjunum þremur í gær, í líflegri lýsingu Páls Sævars Guðjónssonar á Stöð 2 Sport.
„Þessi gæi er með flugeldasýningu hér í kvöld,“ sagði Páll Sævar þegar Arnar Geir sýndi hvers hann er megnugur, gegn andstæðingum sem sumir eru mun reynslumeiri.
Arnar Geir hóf kvöldið á leik við margfaldan meistara Hörð Þór Guðjónsson og náði að knýja fram 3-1 sigur. Hörður átti besta heildarmeðalskor kvöldsins en hann fékk að meðaltali 71,86 með pílunum þremur, á meðan að Arnar Geir kom næstur með 69,44.
Arnar Geir vann næst landsliðsþjálfarann Kristján Sigurðsson, 3-2, eftir að hafa tvívegis lent undir í leiknum. Lokaleikur hans var við Pétur Rúðrik Guðmundsson þar sem Arnar Geir vann 3-1 sigur.
Hörður varð í 2. sæti, Kristján í 3. sæti og Pétur neðstur að þessu sinni, þrátt fyrir að vera með betra meðalskor þetta kvöldið eða 62,12 gegn 68,06 hjá Pétri.