Fótbolti

Rúnar og félagar björguðu stigi gegn tíu leikmönnum Giresunspor

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson í leik með íslenska landsliðinu.
Rúnar Alex Rúnarsson í leik með íslenska landsliðinu. Juan Manuel Serrano Arce/Getty Images

Markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson og félagar hans í Alanyaspor þurftu að sætta sig við eitt stig er liðið tók á móti Giresunspor í tyrknesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Lokatölur 1-1, en heimamenn í Alanyaspor voru manni fleiri stærstan hluta leiksins.

Gestirnir í Giresunspor þurftu að leika manni færri í rétt tæpar 90 mínútur í dag, en Serginho fékk að líta beint rautt spjald strax á fjórðu mínútu leiksins.

Þrátt fyrir það tókst heimamönnum í Alanyaspor ekki að nýta sér liðsmuninn fyrir hlé og staðan því enn markalaus þegar gengið var til búningsherbergja.

Manni færri tókst gestunum að ná forystunni eftir rúmlega klukkutíma leik þegar Gorkem Saglam skoraði framhjá Rúnari af vítapunktinum.

Heimamönnum tókst þó að jafna metin þegar Jure Balkovec kom boltanum í netið tæpum tíu mínútum fyrir leikslok og þar við sat.

Niðurstaðan 1-1 jafntefli og Rúnar og félagar sitja enn í ellefta sæti deildarinnar með níu stig, einu stigi meira en Giresunspor sem situr sæti neðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×