Fyrirhugað var að Sara yrði til viðtals á hóteli landsliðsins líkt og Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari og Dagný Brynjarsdóttir. Í morgun varð hins vegar ljóst að Sara væri orðin slöpp, eins og hent hafði tvo aðra leikmenn liðsins sem er búið að vera saman í Portúgal í tæpa viku.
„Það hafa tveir leikmenn líka verið með slappleika í ferðinni og þá tók þetta sólarhring, svo við erum þokkalega bjartsýn á að hún verði með á morgun. Hún spilar á morgun, ég hef engar áhyggjur af því,“ segir Þorsteinn.
Mögulega með á lokaæfingu í dag
Hann sagði enn óvíst hvort að Sara yrði með á æfingu síðdegis á leikvanginum þar sem spilað verður, Estádio da Mata Real í bænum Pacos de Ferreira.
„Við höfum ekki ákveðið það. Hún var sofandi áðan svo ég var ekkert að vekja hana. Við tökum bara stöðuna á henni á eftir og metum hvað sé best að gera.“
Sara er leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi með 144 leiki, 32 ára gömul, enda teljandi á fingrum annarrar handar þeir mótsleikir með landsliðinu sem hún hefur misst af fyrir utan þegar hún var í barneignarleyfi. Það útskýrir kannski af hverju Þorsteinn hefur ekki áhyggjur af stöðunni á fyrirliðanum:
„Nei, nei. Það hljóta að vera einhver lyf, eða eitthvað drasl, til að koma henni í gang,“ sagði Þorsteinn léttur.
Jasmín og Agla María veiktust líka
Jasmín Erla Ingadóttir og Agla María Albertsdóttir eru hinir tveir leikmennirnir sem fundið hafa fyrir slappleika í ferðinni en „það var ekkert til að hafa áhyggjur af,“ segir Þorsteinn og bætir við að meiðsli angri ekki nokkurn leikmann í hópnum.
Ísland og Portúgal mætast klukkan 17 á morgun, að íslenskum tíma, í úrslitaleik um sæti á HM. Vinni Ísland í venjulegum leiktíma eða framlengingu kemst liðið beint á HM en vinni liðið í vítaspyrnukeppni er mögulegt að það þurfi að fara í aukaumspil í febrúar með liðum úr öðrum heimsálfum.