Trausti segir umrædda rannsókn hafa farið fyrst af stað í janúar 2020, eða nokkru áður en heimsfaraldurinn skall á.
Fyrir vikið séu tölurnar góður mælikvarði á það hvernig starfsfólki á vinnumarkaði leið fyrir Covid, í Covid og í kjölfar Covid.
Þegar mismunandi hópar eru skoðaðir kemur til dæmis í ljós að kulnun stjórnenda er ekki að mælast hátt, hvorki fyrir né eftir Covid, sem eflaust kemur mörgum á óvart því oft hefur verið rætt um mikið álag á stjórnendur sökum heimsfaraldursins.
Hins vegar sjáum við hærri tölur hjá stjórnendum á opinbera markaðinum en á almenna markaðinum.“
Rannsóknin endurtekin í þrjú ár
Trausti segir rannsóknina meðal annars hafa farið af stað í kjölfar þess að VIRK og VR höfðu þá nýverið staðið fyrir herferð til að sporna við kulnun. Prósent ákvað þá að fara í rannsókn á kulnun sem byggir á hinni svokölluðu Maslach-aðferð, en sú aðferðarfræði byggir á því að mæla ekki aðeins hlutfall kulnunar hjá ákveðnum hópum heldur líka hvaða þættir geta gefið vísbendingar um að kulnun sé líkleg.
Rannsóknin fór þannig fram að spurningar voru lagðar fyrir könnunarhóp Prósents, sem áður hét Zenter rannsóknir, í byrjun árs 2020, 2021 og 2022. Niðurstöður fyrir hvert ár byggja á um 900 svörum fólks á aldrinum 18 ára og eldra, sem er á vinnumarkaði.
Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu til að úrtak endurspegli álit þjóðarinnar. Könnunin fór þannig fram að spurningar voru lagðar fyrir á sjö punkta kvarða þar sem 0 mældist „aldrei“ en talan sex sem dagleg upplifun.
Spurningarnar voru eftirfarandi:
- Mér finnst ég tilfinningalega úrvinda vegna vinnu minnar.
- Mér finnst ég vera útkeyr(ð/ur/t) í lok vinnudags.
- Mér finnst ég koma fram við suma einstaklinga tengda vinnu minni eins og þeir séu hlutir en ekki manneskjur.
- Ég tekst á við vandamál einstaklinga tengda vinnu minni á mjög árangursríkan hátt.
- Mér finnst ég vera útbrunni(n/nn/ð) vegna starfs míns.
- Mér finnst ég hafa jákvæð áhrif á líf annarra með minni vinnu.
- Ég finn fyrir auknu tilfinningaleysi í garð annarra eftir að ég byrjaði í núverandi starfi.
- Ég hef áhyggjur af því að þetta starf geri mig tilfinningalega kalda(n)/kalt.
- Starf mitt veldur mér gremju.
- Ég finn fyrir mikilli gleði eftir að hafa unnið náið með fólki sem ég hef afskipti af vegna vinnu minnar.
- Ég hef komið mörgu mikilvægu til leiðar í núverandi starfi.
- Mér finnst ég vera að gefast upp.

Stjórnendur koma vel út
Kulnun er í mörgum hópum að mælast mjög svipuð. Sem dæmi má nefna að munurinn er mjög lítill á konum og körlum eða fólki sem býr á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni.
Þá mælist kulnun frekar sambærileg hjá fólki sem hefur farið í framhaldsskóla eða nám á háskólastigi, en hærri hjá fólki sem aðeins hefur lokið grunnskólaprófi.
Að horfa aðeins á niðurstöður sem sýna hvaða hópar eru að upplifa kulnun er þó ekki aðalmálið að sögn Trausta, því niðurstöðurnar séu líka að gefa góða mynd af því hvað mögulega leiðir fólk á kulnunarstigið.
„Tilfinningaleg örmögnun, sem nú er að mælast hjá um 28% þjóðarinnar, er gott dæmi um atriði sem er einkennandi fyrir þann hóp sem er líklegur til að fara í kulnun. Að tæplega þriðjungur starfsfólks sé að upplifa tilfinningalega örmögnun er ákveðið áhyggjuefni,“ segir Trausti og bætir við:
Hins vegar er líka sláandi að sjá að um helmingur starfsfólks í landinu er ekki að upplifa tilgang eða árangur í vinnunni sinni.
Þetta þýðir að fólk er ekki að upplifa að það sé að skila vinnunni sinni nægilega vel frá sér, eða upplifa sig sem hluta af teyminu og svo framvegis.
Þarna er augljós áskorun til stjórnenda um að gefa starfsfólki meiri tilgang innan vinnustaðarins.“
Í samanburði við margar starfstéttir mælist hlutfall kulnunar hjá stjórnendum frekar lágt, eða 9%. Til samanburðar má nefna að kulnun starfsfólks í kennslu mælist 14% og í heilbrigðisþjónustu 18%.
Kulnun starfsfólks á almennum markaði mælist að meðaltali hjá 10% starfsfólks en 12% starfsfólks sem starfar hjá hinu opinbera.

Aldurshópurinn 18 – 24 ára
Trausti segir að hjá aldurshópnum 18-24 ára mælist almennt mikil ánægja og góð virkni hjá því fólki sem þegar er komið á vinnumarkað.
„Þessi hópur er langt frá því að vera í lamasessi því þarna eru flestir rosalega ánægðir í vinnunni sinni og uppfullir af eldmóði. Til dæmis má benda á að hjá þessum aldurshópi segjast 42% vera mjög virkir eða helgaðir sinni vinnu sem er hátt og gott hlutfall og skýr merki um ánægju.“
Það sem veki hins vegar upp spurningar er að kulnunin hafi hækkað frá 6 til 7% og upp í 17% eftir Covid.
Hvaða skýringar telur þú vera á því?
Þetta er reyndar hópur sem við vissum áður að hefði orðið illa úti í Covid. Þetta er hópur sem lokaðist mikið af í skóla og flosnaði jafnvel upp úr námi.
Margir á þessum aldri einangruðust mikið þegar staðan var hvað verst og lítið félagslíf mögulegt hjá ungu fólki sem almennt er frekar virt í félagslífi á þessum aldri,“
nefnir Trausti sem dæmi.
Þá segir hann mikilvægt að setja þessar niðurstöður í samhengi við aðrar upplýsingar sem lesa megi úr rannsókninni.
„Ef kynslóðamæling Prósents er skoðuð kemur í ljós að 41% fólks á þessum aldri segjast vera að glíma við andlega heilsu og í sömu rannsókn mælist þessi aldurshópur óhamingjusamastur. Það þýðir samt ekki að allir séu óhamingjusamir á þessum aldri heldur það að hlutfallslega eru fleiri óhamingjusamir á þessum aldri í samanburði við eldri aldurshópa.“
Mikil kulnun hjá sölu- og markaðsfólki
Álag og frammistöðupressa í kjölfar þess að heimsfaraldur skall á, hefur einnig haft augljós og mikil áhrif á líðan sölu- og markaðsfólks því þar mælist kulnun hjá 19% en líkt og hjá 18-24 ára eru niðurstöður að sýna verulega aukningu frá því fyrir heimsfaraldur.
Trausti segir þessar niðurstöður stöður hafi komið honum á óvart. Hins vegar þurfi að hafa í huga að fjöldi svarenda í hópi sölu- og markaðsfólks er mun minni en hjá öðrum starfsgreinum, svo sem í heilbrigðisþjónustu eða kennslu.
Í hópi sölu- og markaðsfólks mælist hlutfall þeirra sem líður þannig að vinnan þeirra sé þeim „tilfinningalega ofviða“ líka hátt eða 41%.
Aðspurður segir Trausti enga almenna lausn vera til um það hvað vinnustaðir geti gert til að sporna við þeim þáttum sem helst virðast hafa áhrif á það hvort viðkomandi leiðist á kulnunarstigið eða ekki.
„Þetta fer alltaf eftir því hver vinnustaðurinn er, hvernig starfið er, stjórnunin, menningin, verklagið og svo framvegis. Það er engin ein lausn eða eitt svar til. En það er mikilvægt að fyrirtæki og stofnanir kanni markvisst stöðuna hjá sér og fari í viðeigandi aðgerðir tli að bæta líðan starfsfólks.“
Hér má sjá niðurstöður rannsóknar Prósent árið 2022, sundurliðaðar eftir starfsgrein.
