Herjólfur III leysir nú af Herjólf IV á meðan hann er í slipp og hefur gert það síðan á mánudaginn. Á þeim tíma hefur skipið tvisvar bilað en í dag mun hann ekki sigla til Landeyjahafnar heldur til Þorlákshafnar. Einungis ein ferð verður á milli í staðinn fyrir fimm eins og venjan er.
„Eins og þú getur ímyndað þér, þá erum við ekki ánægð. Herjólfur III er að leysa Herjólf IV af. Hann hentar illa til siglinga í höfnina sem er ekki búið að dýpka nógu mikið fyrir hann. Svo er ekkert áætlunarflug þannig við erum með óboðlegar samgöngur í augnablikinu,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, í samtali við fréttastofu.

Um þessar mundir er skólafrí í grunnskólanum í Vestmannaeyjum og margir sem sækja ýmsa þjónustu til Reykjavíkur, til dæmis læknisþjónustu. Íris segir ástandið hafa gríðarleg áhrif á samfélagið.
„Þessi staða sem er uppi núna hefur verið í gangi þessa viku. Herjólfur byrjar að sigla Herjólfi þriðja á mánudaginn og það er búið að vera bras á samgöngum síðan þá. Tvær bilanir í skipinu. Við höfum óskað eftir því að það verði brugðist við með því að setja upp flug á meðan staðan er svona. Við erum að bíða viðbragða við því. Við erum löngu búin að biðja um það, það eru margar vikur síðan við bentum á að það þyrfti að tryggja dýpkun fyrir Herjólf III,“ segir Íris.

Flug milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur er ekki styrkt af ríkinu og sjá einkaaðilar sér ekki hag í því að gera það af markaðsforsendum.
Aðeins er búið að ákveða að Herjólfur III sigli eina ferð í dag og siglir hann til Þorlákshafnar í staðinn fyrir Landeyjahöfn.
„Þú getur ímyndað þér hvernig það er þegar margir vilja ferðast. Það er ekki í lagi að bjóða okkur upp á þetta. Þessar samgöngur til Vestmannaeyja eru á ábyrgð ríkisins og Vegagerðarinnar. Þau þurfa bara að gera betur,“ segir Íris.