Fótbolti

Rúnar Alex frábær í jafntefli gegn Galatasaray

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Dries Mertens skoraði fyrra mark Galatasaray.
Dries Mertens skoraði fyrra mark Galatasaray. vísir/Getty

Rúnar Alex Rúnarsson og félagar í Alanyaspor sóttu sterkt stig til Istanbul í tyrknesku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Galatasaray er stórveldi í tyrkneskum fótbolta en unnu síðast deildina árið 2019. Þeir voru stórtækir á leikmannamarkaðnum í sumar og sóttu leikmenn á borð við Mauro Icardi, Dries Mertens, Juan Mata og Lucas Torreira.

Það blés ekki byrlega fyrir Rúnari Alex og félögum í kvöld því Mertens og Icardi gerðu sitt markið hvor á fyrstu tuttugu mínútum leiksins.

Eftir hálftíma leik fékk Sacha Boey, varnarmaður Galatasaray að líta rauða spjaldið.

Alanyaspor náði að nýta sér liðsmuninn og jafna metin áður en yfir lauk en jöfnunarmarkið var skorað í uppbótartíma venjulegs leiktíma og áður en flautað var til leiksloka var annað rautt spjald dæmt á heimamenn í Galatasaray.

Rúnar Alex átti afar góðan leik í marki Alanyaspor en þrátt fyrir að vera einum færri stærstan hluta leiksins áttu heimamenn alls tólf skot á mark í leiknum.

Rúnar Alex og félagar í 10.sæti deildarinnar með þrettán stig en Galatasaray hefur átján stig í 8.sæti og er fimm stigum á eftir erkifjendum sínum í Fenerbahce sem tróna á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×