Vikan framundan: Níu skráð félög birta uppgjör vegna þriðja ársfjórðungs
Ritstjórn Innherja skrifar
Uppgjör skráðra félaga fyrir þriðja fjórðung yfirstandandi árs halda áfram að birtast þessa dagana. Alls munu níu skráð félög birta uppgjör í vikunni. Síminn heldur hluthafafund á miðvikudag þar sem fyrir liggur tillaga stjórnar félagsins um ráðstöfun söluhagnaðar Mílu.
Síminn birtir uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun markaða á þriðjudag. Sama dag birtir Hagstofan upplýsingar um þróun fasteignamarkaðar eftir landshlutum.
Festi og Arion banki birta uppgjör eftir lokun markaða á miðvikudag. Í eftirmiðdaginn hefur verið boðað til hluthafafundar Símans þar sem tekin verður ákvörðun um greiðslu til hluthafa í kjölfar sölunnar á Mílu upp á 31,5 milljarð króna.
Fram kom í tilkynningu Símans til kauphallarinnar 30. september síðastliðinn að Síminn hefði fengið greitt að fullu fyrir Mílu, annars vegar 32,7 milljarða króna í reiðufé og hins vegar 17,5 milljarða króna í formi skuldabréfs til þriggja ára.
Fimmtudagurinn verður stór í þessari viku. Hagstofan birtir verðbólgutölur fyrir október um morguninn. Væntingar flestra markaðsaðila standa til þess að dragi úr verðlagshækkunum í mánuðinum.
Eftir lokun markaða sama dag birta sex félög uppgjör fyrir þriðja fjórðung: Íslandsbanki, Sjóvá, SKEL, Origo, Nova og Eik.