Innlent

Svan­­dís á­­varpar aðildar­­ríkja­fund í Egypta­landi

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra verður fulltrúi Íslands á tuttugasta og sjöunda aðildarríkjafundi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP27). Fundurinn stendur nú yfir í Sharm El Sheikh í Egyptalandi.

Svandís kemur til með að ávarpa ráðherrafund og taka þátt í hliðarviðburðum. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra flytur ávarp á viðburði á vegum Hringborðs Norðurslóða í gegnum streymi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælaráðuneytinu. „Sendinefnd Íslands er skipuð 17 fulltrúum frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, matvælaráðuneytinu, Umhverfisstofnun og Orkustofnun. Þá styrkir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið fulltrúa ungmenna til þátttöku á fundinum og er þetta í annað sinn sem fulltrúi ungmenna er í opinberu sendinefndinn,“ segir í tilkynningunni.

Ekki verði vikið frá markmiði Parísarsamningsins

Áherslur Íslands eru að ekki verði vikið frá markmiði Parísarsamningsins um að halda hlýnun jarðar frá iðnbyltingu innan við 1,5 °C. Samkvæmt nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna duga núverandi loforð ríkja um samdrátt í losun ekki til að markmiðið náist.

Í tilkynningunni frá Matvælaráðuneytinu kemur fram að Ísland styðji nú í fyrsta sinn Aðlögunarsjóðinn með framlögum og framlög til Græna loftslagssjóðsins hafa verið aukin. Ísland eigi nú varamann í stjórn sjóðsins og geti því betur fylgst með og haft áhrif á ákvarðanatökur innan sjóðsins.

50 þátttakendur frá Íslandi

„Auk hinnar formlegu sendinefndar sækja þingmenn og fulltrúar frá félagasamtökum og fyrirtækjum viðburði sem tengjast loftslagsráðstefnunni beint eða óbeint, en um 50 þátttakendur frá Íslandi eru skráð á COP27 og tengda viðburði. Áætlað er að í kringum 20 þúsund manns taki þátt í loftslagsráðstefnunni og tengdum viðburðum í Sharm El Sheikh,“ segir í tilkynningunni.

Nánari upplýsingar um fundinn má finna á heimasíðu COP27.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×