Tilkynnt var í dag að hætt yrði að framleiða ávaxtasafann Svala um áramótin. Fjörutíu ára saga safans er því á leiðarenda. Fréttir af málinu vöktu mikla athygli hér á landi, eins og fjallað var um í kvöldfréttum Stöðvar 2.
En það er ekki bara Íslendingar sem þurfa að lifa án Svalans. Það sama gildir um Færeyjar, þar sem safinn hefur einnig verið seldur.
Færeyski fjölmiðillinn Dimmalættingur vekur athygli á þessu og bendir á að það sama gildi um Færeyjar og Ísland, sem verði brátt Svalalausar eyjur, þar sem hinn „víðfrægi svaladrykkur Svali,“ eins og það er orðað í fréttinni hafi verið til sölu víða um Færeyjar.
Í fréttinni er vitnað í fréttir úr íslenskum miðlum af endalokum Svalans og það sem Einar Snorri Magnússon, forstjóri Coca-Cola European Partners á Íslandi, hefur haft um málið að segja.
„Þetta er svaladrykkur með sykri, sem höfðar til barna, sem samrýmist ekki okkar stefnu,“ sagði Einar Magnús í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Ekki fylgir þó sögunni í Dimmalættingi hvort að frændur okkar í Færeyum syrgi Svalann jafn mikið og Íslendingar.