Þetta segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður annars af mönnunum tveimur sem hafa setið í gæsluvarðhaldi vegna meintrar skipulagningar hryðjuverka, í samtali við Fréttablaðið.
Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald í dag en það rennur út á morgun. Sveinn Andri segir það gert á grundvelli almannahagsmuna en hann segir lögregluna komna „langt fram úr sjálfri sér“ og vonandi sjái dómurinn það.
Búið er að framkvæma geðmat á báðum mönnum en lögmaðurinn segist ekki geta tjáð sig um það.
Mennirnir tveir, sem báðir eru á þrítugsaldri, eru grunaðir um að hafa staðið að prentun vopna og skipulagningu hryðjuverka sem eiga meðal annars að hafa beinst að lögreglu, þingmönnum og einstaklingum í verkalýðsforystunni.
Þeir hafa nú setið í gæsluvarðhaldi í sjö vikur.
Sveinn Andri hefur áður sagt að skjólstæðingur sinn sé „meinleysisgrey“ sem gerði ekki flugu mein og að samtöl mannanna á milli hafi verið „misheppnað grín“. Hann hefur ekki trú á því að mennirnir verði ákærðir fyrir annað en vopnalagabrot.