Í 5. og 4. sæti á lista Einars voru hornamenn úr tveimur neðstu liðum deildarinnar, Selfossi og HK. Þetta eru þær Rakel Guðjónsdóttir og Leandra Náttsól Salvamoser. Í 3. sætinu er svo Lena Margrét Valdimarsdóttir, hægri skytta Stjörnunnar.
„Lena hefur ekkert sýnt í Olís-deildinni síðustu tvö ár. Hún spilaði aðeins með Fram í hitteðfyrra og með Stjörnunni í fyrra en gerði ekkert, þannig séð. En núna er hún, held ég, topp þrír besti leikmaður deildarinnar það sem af er tímabilinu og á stóran þátt í því að Stjarnan hefur verið frábær,“ sagði Einar.
Í 2. sætinu er svo samherji Lenu hjá Stjörnunni, Britney Cots. „Það sem hún hefur gert og bætt mikið er að hún er hætt að fá þessar rugl tvær mínútur og jafnvel rauð spjöld. Það mátti þakka fyrir að einhver slapp lifandi út af vellinum eftir að hafa mætt henni í fyrra,“ sagði Einar og bætti við að Britney væri líka mjög öflug í seinni bylgjunni.
Elín Rósa Magnúsdóttir, leikstjórnandi Vals, er svo í efsta sæti lista Einars. „Það sem Gústi [Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals] hefur gert vel er að hann hefur þroskað hana upp í þetta hlutverk sem hún er komin í. Að mínu mati er þetta stelpa sem á algjörlega skilið að fara í landsliðið.“
Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.