Túnisbúar vinna heimsmeistara Frakka en eru samt á heimleið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wahbi Khazri fagnar marki sínu á móti Frökkum sem var það síðasta sem hann gerði í leiknum.
Wahbi Khazri fagnar marki sínu á móti Frökkum sem var það síðasta sem hann gerði í leiknum. AP/Martin Meissner

Túnisbúar eru hins vegar úr leik á mótinu af því að Ástralar unnu Dani á sama tíma. Frakkar vinna riðilinn á markatölu og Ástralar fylgja þeim í sextán liða úrslitin. Túnis og Danmörk eru á heimleið.

Wahbi Khazri skoraði eina mark leiksins á 58. mínútu með síðustu snertingu sinni í leiknum en fram að því höfðu Túnisbúar verið miklu betri á móti líflausum Frökkum sem telfdu fram varaliði sínu í dag. Khazri keyrði sig alveg út en átti nokkra bensíndropa eftir til að pota boltanum í mark Frakka.

Frakkar héldu reyndar að þeir væru búnir að jafna metin í blálokin á uppbótatímanum en mark Antoine Griezmann var dæmt af eftir að leiknum lauk.

Dómarinn var búinn að flauta af en hann fór í skjáinn, dæmdi markið af og flautaði leikinn aftur á. Frakkar náðu ekki að jafna aftur og Túnisbúar fögnuðu súrsætum sigri.

Frakkar vinna riðilinn en voru hörmulegir nær allan leikinn. Innkoma Kylian Mbappe hressti aðeins upp á þetta í lokin en honum tókst ekki að bæta við mörkin þrjú sem hann er þegar búinn að skora.

Frakkar mæta liðinu sem endar í öðru sæti í C-riðli sem klárast í kvöld. Þetta var aðeins þriðji sigur Túnis í úrslitakeppni HM og þetta var eina mark liðsins í öllu mótinu. Auðvitað svekkjandi að detta úr leik en leikmennirnir geta farið með höfuðið hátt heim eftir að hafa unnið heimsmeistarana.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira