Fyrsta fjárhagsáætlun meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar var samþykkt í borgarstjórn í gærkvöldi. Áætlunin tekur mið af nýrri þjóðhagspá Hagstofunnar og gerir ráð fyrir áframhaldandi vexti borgarinnar og fullri fjármögnun grunnþjónustu en aðhaldi í öðrum rekstri.
Þá var einnig samþykkt ný fjármálastefna og fjárhagsáætlun til næstu fimm ára, 2023 til 2027.
„Mér fannst fundurinn sjálfur ganga vel, umræðurnar málefnalegar. Það reyndist vera miklu breiðari stuðningur við fjölmargar af þeim hagræðingartillögum sem við höfum lagt fram en umræðan gaf til kynna,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Útfæra og innleiða þurfi hagræðingaraðgerðir af virðingu við borgarana. Meðal þeirra hagræðinga sem hafa verið gagnrýndar er lokun Vinjar, dagseturs fyrir fólk með geðraskanir en borgin tók við rekstrinum af Rauða Krossinum í júlí síðastliðnum.
„Hugmyndin er að þjóna [þessum hópi] með öðrum hætti í samhengi við aðra þjónustu borgarinnar. Næsta skref í því er að setjast niður með geðhjálp og öðrum sem koma að málaflokknum til að finna góða lendingu varðandi það,“ segir Dagur.
Minnihlutinn segir aðgerðirnar ekki nógu drastískar.
„Þessi fjárhagsáætlun sýnir að það á að halda áfram á brautu skuldasöfnunar í borgarstjórn. Það eru mjög slæm tíðindi fyrir borgarbúa að það skuli að eiga að bæta enn við skuldirnar,“ segir Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn lagði til á dögunum sjö milljarða króna sparnaðaraðgerðir, sem voru ekki samþykktar.
„Hagræðingin er samt ekki svo mikil. Það sér varla högg á vatni og ástandið er þannig að það hefði þurft að ráðast í miklu víðtækari og stærri hagræðingaraðgerðir.“