Fótbolti

Meistaraleg tækling Glódísar Perlu í Meistaradeildinni vekur mikla athygli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir er í algjöru lykilhlutiverki hjá Bayern München.
Glódís Perla Viggósdóttir er í algjöru lykilhlutiverki hjá Bayern München. Getty/Christian Hofer

Íslenska landsliðskonan Glódís Perla Viggósdóttir og félagar hennar í Bayern München unnu glæsilegan sigur á Barcelona í Meistaradeildinni í gær.

Leikurinn var spilaður á Allianz Arena fyrir framan 24 þúsund manns og heimafólkið gat ekki beðið um meira.

Bæjarar skoruðu þrjú mörk í leiknum og urðu fyrsta liðið til að vinna Barcelona síðan Lyon vann liðið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í maí. Barca stelpurnar voru taplausar í sextán leikjum í röð fyrir leikinn.

Barcelona náði að skora á 65. mínútu eftir mistök Mariu-Luisu Grohs, markvarðar Bæjarar sem lét stela boltanum af sér.

Barcelona liðið pressaði talsvert á Bayern í seinni hálfleiknum en vörnin var lengst af mjög traust.

Glódís Perla var mjög flott í miðri vörn Bayern og kom oft til bjargar. Það var þó meistaraleg tækling hennar sem vakti mesta athygli.

Glódís kom til bjargar á 75. mínútu þegar hin brasilíska Geyse gerði sig líklega að minnka muninn í 3-2 og galopna leikinn.

Það má sjá þessa mögnuðu tæklingu hér fyrir neðan en Glódís Perla gat ekki tímasett hana betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×